Viðskipti innlent

Auðlindaskattur mismunar atvinnugreinum

Upplýsingar sem greining Arion banka hefur tekið saman sýna að auðlindaskattur mismunar atvinnugreinum, það er stóriðju og sjávarútvegi. Svo virðist sem sjávarútvegurinn borgi tvöfalt meira í auðlindaskatt en stóriðjan ef miðað er við gjöld af tekjum.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að stærstu fyrirtækin í stóriðju séu í eigu erlendra félaga. Því er ljóst að minni hluti þeirra gjaldeyristekna sem stóriðjan skapar verður eftir í landinu,þar sem hagnaðurinn fer úr landi í formi arðgreiðslna, samanborið við sjávarútveginn.

„Tekið skal fram að greiningardeild er ekki að leggja til aukna skattlagningu á stóriðju. Hins vegar má velta upp þeirri spurningu hvort verið sé að mismuna útflutningsgreinum á Íslandi þegar kemur að skattlagningu „auðlindar“. Sjávarútvegurinn skapar stærstan hluta af gjaldeyristekjum landsins en sér fram á aukna gjaldtöku um ókomna framtíð nái frumvarp um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi fram að ganga,“ segir í Markaðspunktunum.

„Í lok árs 2009 samþykkti Alþingi lög um umhverfis- og auðlindaskatta. Í lögunum felst að skattur verður lagður á selda raforku og heitt vatn. Fjárhæð skatts af seldri raforku er 0,12 kr. á hverja kílóvattstund, en skattur á heitt vatn er 2% af smásöluverði. Skattskyldan nær eingöngu til þeirra aðila sem kaupa raforku og heitt vatn á síðasta stigi viðskipta. Skatturinn leggst þyngst á stóriðjuna sem notaði rúmlega 13 þúsund milljónir kílóvattstunda af raforku árið 2009.“

Þá segir að samkvæmt útreikningum greiningarinnar nam auðlindaskattur á stóriðju um 1,5 milljörðum kr. í fyrra. Að meðaltali greiddi sjávarútvegurinn rúmlega 1% af tekjum sínum í veiðigjald á síðasta áratug, en greinin greiddi um 2,5 milljarða  kr. í veiðigjald við upphaf fiskveiðiársins 2010/2011. Í fyrra námu greiðslurnar því um 2% af tekjum greinarinnar.

„Svo virðist sem stóriðjan hafi greitt tvöfalt lægra auðlindagjald samanborið við sjávarútveginn, ef miðað er við hlutfall gjaldsins af tekjum,“ segir í Markaðspunktunum.

„Erfitt er þó að fá heildarmynd af því hvernig gjaldið leggst á greinina þar sem raforkuskatturinn var greiddur í fyrsta sinn í fyrra. Í því samhengi ber þó að vekja athygli á því að lög um umhverfis- og auðlindaskatta eiga að falla úr gildi í árslok 2012, en til stendur að hækka veiðigjald sjávarútvegsins enn meira á næstkomandi árum. Mat greiningardeildar bendir til þess að veiðigjaldið gæti orðið allt að 4,3% af tekjum sjávarútvegs ef núverandi frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið verður að lögum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×