Viðskipti innlent

Skuldaaðlögun eykur einkaneyslu og fjárfestingar

Greining Íslandsbanka segir að aðgerðir í skuldaaðlögun skýri að hluta þann vöxt sem greina má í einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna á þessu ári. Jókst einkaneyslan um 3,1% á fyrri hluta þessa árs og benda korta- og innflutningstölur til þess að vöxturinn hafi haldið áfram á þriðja árfjórðungi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um niðurfærslur á skuldum heimilanna. Í lok ágúst síðastliðinn var búin að færa niður lán heimilanna um 164 milljarða kr., þar af 131 milljarða kr. vegna endurútreiknings gengistryggðra lána sem skiptist á milli íbúðalána, samtals 92 milljarða kr., og bifreiðaviðskipta samtals 38 milljarða kr.

Í lok ágúst höfðu 15.592 umsóknir borist fjármálafyrirtækjum og Íbúðalánasjóði um að fá eftirstöðvar fasteignaskulda færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar með hinni svokölluðu 110% leið. Af þessum umsóknum var búið að samþykkja 8.551 umsókn í lok ágúst og nam heildarfjárhæð niðurfærslu lánanna ríflega 27 milljörðum kr., þar af 24 milljarðar kr. hjá fjármálafyrirtækjum.

„Aðgerðir í skuldaaðlögun skýra að hluta þann vöxt sem greina má í einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna á þessu ári. Jókst einkaneyslan um 3,1% á fyrri hluta þessa árs og benda korta- og innflutningstölur til þess að vöxturinn hafi haldið áfram á þriðja árfjórðungi. Ljóst er að margir samverkandi þættir eru að skila þessum vexti,“ segir í Morgunkorninu.

„Ofangreind niðurfærsla skulda hefur áhrif ásamt fyrirframgreiðslu séreignarsparnaðar, frystingu lána og vaxtabótum. Fyrirfram útgreiðslur séreignarsparnaðar voru 15 milljarðar kr. í fyrra sem jafngildir um 1% af landsframleiðslu. Reikna má með að útgreiðslan verði lítið minni í ár. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla var greidd út á yfirstandandi ári og verður svo einnig á árinu 2012 og hefur hún eflaust haft áhrif. Kostnaður við þá niðurgreiðslu er 12 milljarðar kr. Þessu til viðbótar voru kjarasamningar ríflegir og munu þeir skila 6% hækkun launa á þessu ári og nokkuð umfram verðbólguna þannig að kaupmáttur launa hefur verið vaxandi.“

Miklar skuldir í alþjóðlegum samanburði

Þá segir að þrátt fyrir niðurfærslu skulda heimilanna eru skuldir íslenskra heimila miklar í alþjóðlegum samanburði. Mestar urðu skuldirnar 127% af landsframleiðslu árið 2008. Síðan þá hafa þær lækkað og í lok mars 2011 voru þær komnar niður í 110% af landsframleiðslu sem er svipað og árið 2007 samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.

Hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum hefur einnig verið að lækka eftir að hafa náð sögulegum hæðum árið 2009. Fór það í 237% af ráðstöfunartekjum árið 2009 en er nú 213%. Þess má geta að hlutfallið var 166% í upphafi síðasta áratugar. Ljóst er að þessar miklu skuldir íslenskra heimila setja framtíðarhorfum um vöxt einkaneyslu og fjárfestingar heimilanna miklar skorður og í leiðinni munu þær hefta hagvöxt hér á landi á næstu árum, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×