Viðskipti innlent

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna rýrnuðu um 35 milljarða

Erlendar eignir lífeyrissjóða skruppu saman í ágúst um tæpa 35 milljarða kr., eða sem nemur 7%, og hefur hlutfall þeirra af heildareignum lífeyrissjóða ekki verið lægra í ríflega sex ár.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á heildina litið minnkaði hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris um 24 milljarða kr. í ágústmánuði, en hún nam 2.019 milljörðum kr. í ágústlok. Svo mikil hefur lækkun á eign sjóðanna milli mánaða ekki verið síðan í ársbyrjun 2009 eða síðan sjóðirnir voru enn að súpa seyðið af bankahruninu.

Ágústmánuður var afleitur á erlendum hlutabréfamörkuðum, og er það meginskýringin á rýrnun erlendra eigna lífeyrisjóðanna, enda eru þær að stærstum hluta bundnar í erlendum hlutabréfasjóðum. Má nefna að S&P500-vísitalan lækkaði um ríflega 6% í mánuðinum og Euro Stoxx-vísitalan lækkaði um nærri 13% á sama tíma. Auk þess styrktist krónan um 1,5% í ágústmánuði, sem vitaskuld rýrir erlendu eignastöðuna í krónum talið.

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu alls 454 milljörðum kr. í ágústlok, sem samsvarar 22,5% af hreinni eign sjóðanna. Þetta hlutfall hefur lækkað jafnt og þétt frá fyrri hluta ársins 2010, og hefur það ekki verið lægra en nú frá því á vordögum árið 2005. Framangreind þróun á erlendum mörkuðum hélt svo áfram í september, auk þess sem krónan styrktist lítillega til viðbótar, svo gera má ráð fyrir að erlendar eignir sjóðanna hafi rýrnað enn frekar í síðasta mánuði.

„Þessi þróun hefur væntanlega veruleg áhrif á vilja sjóðanna til þess að selja erlendar eignir sínar í skiptum fyrir ríkisskuldabréf í krónum í útboðum Seðlabankans, enda er ekki á vísan að róa með hvenær gjaldeyrishöftunum verður aflétt að því marki að þeir geti á ný farið að auka erlendar eignir sínar,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×