Viðskipti innlent

Fjallað um tölvuárásir á íslensk fyrirtæki í Hörpu

Mynd/Getty
Ráðstefna verður haldin í Í Hörpu á morgun þar sem fjallað er um tölvuárásir á fyrirtæki. Capacent, Deloitte og Promennt standa að ráðstefnunni sem hefst klukkan níu og stendur til hádegis. Fjallað verður um hvaða afleiðingar tækniógnir geti haft fyrir rekstur fyrirtækja og hvernig draga megi úr áhættunni. „Á ráðstefnunni verða tekin raunveruleg dæmi af íslenskum fyrirtækjum er hafa orðið fyrir tjóni af völdum tölvuglæpamanna,“ segir í tilkynningu.

„Tölvuglæpir eru sífellt skæðari ógnvaldur í rekstri íslenskra fyrirtækja. Daglega eru gerðar árásir á fyrirtæki og stofnanir og geta afleiðingarnar verið mjög alvarlegar ef árásin tekst, enda eru viðkvæmustu upplýsingar fyrirtækja geymdar í upplýsingakerfum þess.“

Þá segir að netógnir séu ekki tæknilegt vandamál heldur áhættuþáttur sem geti stefnt rekstri fyrirtækja, ímynd þeirra og orðspori í hættu. „Því er mikilvægt að æðstu stjórnendur séu meðvitaðir um þá ógn sem er til staðar og hvaða afleiðingar tölvuárásir geta haft.“

Erindi flytja Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte, Bjarni Snæbjörn Jónsson, ráðgjafi, Theódór R. Gíslason, ráðgjafi í upplýsingaöryggi, Tryggvi R. Jónsson, liðsstjóri Áhættuþjónustu Deloitte og Ólafur R. Rafnsson, ráðgjafi á sviði öryggismála.

„Þá munu stjórnendur frá nokkrum fyrirtækjum, s.s. Promennt og CCP greina frá reynslu sinni af því að verða fyrir tölvuárás.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×