Viðskipti innlent

Þjónusta bætt á Gatwick

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gatwick flugvöllur er í London.
Gatwick flugvöllur er í London. Mynd/ AFP.
Farþegar Iceland Express frá Lundúnum ættu að komast mun hraðar í gegnum öryggiseftirlit á Gatwick flugvelli, eftir að nítján ný öryggishlið voru tekin í notkun á flugvellinum í gær. Endurbæturnar kostuðu 8,1 milljarð króna og eru hluti af 218 milljarða króna heildarkostnaði við endurbætur á flugvellinum.

Samkvæmt tilkynningu frá flugvallaryfirvöldum í Bretlandi, sem Iceland Express vísar til, segir að breytingarnar þýði að ekki eigi að taka meira en fimm mínútur að koma hverjum farþega í gegnum öryggiseftirlit flugvallarins. Um fimm þúsund farþegar geti farið í gegnum öryggishlið Gatwick á hverri klukkustund, eða 25 prósent fleiri en áður. Af nítján örygggishliðum eru tvö sérhönnuð til að afgreiða fjölskyldur með ung börn og fatlaða og önnur tvö eru ætluð farþegum sem greitt hafa sérstaklega fyrir meiri þjónustu.

Farþegar geta nú sjálfir skannað brottfararspjald sitt við komuna í öryggiseftirlitið, hvort sem brottfararspjaldið er á pappír eða í smartsíma. Theresa Villiers samgönguráðherra Bretlands sagði við opnun nýju öryggishliðanna í gær að í huga margra væri öryggiseftirlitið minnst spennandi hluti ferðalagsins. Ríkisstjórn Bretlands væri hins vegar staðráðin í að endurbæta framkvæmd þessa nauðsynlega eftirlits, þannig að það væri meira farþegavænt án þess að dregið yrði úr öryggiskröfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×