Viðskipti innlent

Bankakerfið ekki of stórt í sögulegu samhengi

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Bankastjóri Íslandsbanka segir stærð bankakerfisins ekki óeðlilega í sögulegu samhengi. Sterkara og stærra eftirlitskerfi verði til þess að fækkun starfsfólks í fjármálageiranum verði ekki eins mikil og margir vilja reikna með.

Íslandsbanki hélt í dag fjármálaþing þar sem meðal annars var farið yfir nýja þjóðhagsspá bankans. Í spánni gerir bankinn ráð fyrir hægum hagvexti uppá 2,2 prósent á næsta ári sem er tæpi prósenti minna en forsendur fjárlaga fyrir árið 2012 gera ráð fyrir. Það eru aðallega erlendir þættir sem valda óróa, hins vegar sé þetta nægur vöxtur til að byrja að lækka atvinnuleysið.

„Við erum að hífa okkur upp úr kreppunni á þann mælikvarða að það ættu að skapast hérna aukin störf og við færast meira í átt að jafnvægi bæði í utanríkisviðskiptum og lægri verðbólgu, þættir sem við erum að glíma við í dag," segir Ingólfur Bender forstöðumaður Greiningardeildar Íslandsbanka.

Mikið hefur verið rætt um stærð bankakerfisins að undanförnu og meðal annars verið háværar gagnrýnisraddir á að kerfið sé enn of stórt.

„Í sögulegu samhengi er fjöldinn sem re að starfa í bankakerfinu sé ekkert óeðlilegur miðað við stærð þess núna en auðvitað hefur bankakerfið minnkað mikið, það er ekki nema fimmtungur þess sem það var fyrir hrun og við sjáum líka að það hefur verið mikil fækkun í kerfinu af starfsfólki og það á eftir að halda áfram þegar endurskipulagningu lýkur og jafnvægi kemur á starfsemina," segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.

Þá tekur hún fram að rík áhersla sé lögð á sterkt eftirlitskerfi sem hefur stækkað gríðarlega.

„það þarf aðila til að vinna á móti því eða með því að afla þeirra gagna sem þarf til að þeir geti uppfyllt sínar skyldur þannig ég held að fækkunin verði aldrei eins mikil og kannski margir reikna með," segir Birna að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×