Viðskipti innlent

Harpa skapar yfir milljarð aukalega í gjaldeyristekjum

Mynd/Valgarður
Ætla má að beinar og óbeinar viðbótargjaldeyristekjur vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu geti numið 1,0-1,4 milljörðum kr. árlega. Sú tala gæti þó hækkað verulega ef fleiri koma til landsins sérstaklega vegna Hörpu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var af hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar segir að tekjur af 12.000 útlendingum sem kæmu sérstaklega vegna ráðstefna í Hörpu gætu numið á bilinu 2,1-3,0 milljörðum króna á ári.

„Engin sérstök ráðstefnubygging hefur verið reist hérlendis heldur hafa ráðstefnur yfirleitt verið haldnar á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Þá hafa ráðstefnur og vörukynningar verið haldnar í íþróttahúsum," segir í skýrslunni.

„Harpa gæti tekið á móti 1.000−1.500 manna ráðstefnum nokkuð auðveldlega. Til samanburðar má lauslega áætla að Hilton Reyjavík Nordica og Grand Hótel geti haldið 600−800 og 500−600 manna ráðstefnur. Þegar hafa verið bókaðar og staðfestar 24 ráðstefnur til ársins 2015 þar sem meginþorri þátttakenda eru erlendir gestir. Gert er ráð fyrir að yfir 14.000 þátttakendur sæki umræddar ráðstefnur. Gert er ráð fyrir því að hver ráðstefnugestur dvelji að vetri til 4,6 daga á landinu en 9,9 daga að sumri til.

Einnig er miðað við að gjaldeyristekjur af hverjum ráðstefnugesti geti verið á bilinu 45 til 65 þúsund kr. á hverjum degi. Er hér miðað við heildarkostnað vegna uppihalds, gistingar og flugfargjalds. Umræddar fjárhæðir eru ögn hærri en meðalneysla ferðamanna en í samræmi við tölur frá Sameinuðu þjóðunum sem og tölur frá ráðstefnum á Norðurlöndunum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×