Viðskipti innlent

Tæpur 61 milljarður niðurfærður af Landsbankanum

Mynd/Daníel
Landsbankinn hefur þegar fært niður skuldir einstaklinga um 61 milljarð króna en þegar samið var um kaup Landsbankans á lánasafni einstaklinga hjá gamla bankanum nam niðurfærsla kaupverðsins 46 milljörðum. Bankinn hefur því þegar fært niður meira en nam afslætti við kaupin á lánasafninu og þar munar 15 milljörðum.

Eftir bankahrunið hefur verið rík krafa um að færa niður útlán til einstaklinga en því hefur verið haldið fram af ýmsum eins og t.d Hagsmunasamtökum heimilanna að svigrúm bankanna til afskrifta sé mun meira en stjórnendur bankanna hafi gefið til kynna meðal annars af þeirri ástæðu að bankarnir hafi keypt útlánasöfn gömlu bankanna á miklum afslætti.

Landsbankinn tilkynnti nú laust fyrir fréttir að þegar samið hafi verið um kaup bankans á útlánasafni gamla bankans til einstaklinga hafi afsláttur á kaupverði numið 46 milljörðum króna. Niðurfærsla Landsbankans á lánum til einstaklinga nemi nú þegar tæpum 61 milljarði króna, sem þýðir að bankinn hefur þegar fært lán til einstaklinga niður fimmtán milljarða króna meira en sem nam afslætti á útlánasafninu.

Í tikynningu frá bankanum kemur fram að af þessum 61 milljarði króna séu 33 milljarðar vegna dóma Hæstaréttar þar sem gengistryggð lán voru dæmd ólögmæt, annars vegar svokallaður 16. júní dómur Hæstaréttar og hins vegar dómur í svokölluðu Mótormax-máli.





Uppfært: 19:12






Fleiri fréttir

Sjá meira


×