Viðskipti innlent

Faxaflóahafnir skila 200 milljóna afgangi á næsta ári

Tekjur Faxaflóahafna sf. fyrir næsta ár eru áætlaðar verða alls tæpir 2,5 milljarðar kr. en rekstrargjöld tæpir 2,2 milljarðar kr. Rekstrarafgangur er áætlaður 205,0 milljónir kr. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun hafnanna fyrir næsta ár sem send hefur verið borgarstjórn Reykjavíkur til umfjöllunar.

Gert er ráð fyrir að verja 800 milljónum kr. til fjárfestinga og er lenging Skarfabakka stærsta verkefnið en verktími þess er áætlaður þrjú ár eða frá 2012 til 2014. Þá er einnig gert ráð fyrir viðgerðum á Kleppsbakka, sem eftir 40 ára notkun er orðinn lúinn.

Á Grundartanga verður haldið áfram undirbúningi að lengingu Tangabakka auk þess sem unnið verður að frágangi gatnakerfis og fleiri verkefna. Loks má nefna að hafist verður handa við endurnýjun á efri hæð Bakkaskemmu með það fyrir augum að húsnæðið komist í útleigu fyrir hafnsækna starfsemi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×