Viðskipti innlent

Sigurjón Pálsson nýr framkvæmdastjóri hjá Arion banka

Sigurjón Pálsson er nýr framkvæmdastjóri hjá Arion banka. Sigurjón tekur við starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs bankans. Undir rekstrarsvið falla starfsmannasvið, upplýsinga- og tæknisvið, viðskiptaumsjón og eignaumsýsla. Á sviðinu starfa um 250 starfsmenn.

Í tilkynningu segir að Sigurjón sé verkfræðingur að mennt með meistaraprófsgráður frá KTH háskólanum í Stokkhólmi og MIT í Massachusetts. Sigurjón hefur starfað hjá bankanum og forverum hans síðan 2005, fyrst í fyrirtækjaráðgjöf, en undanfarin ár hefur hann starfað sem forstöðumaður í fyrirtækjalausnum. Sigurjón starfaði áður sem stjórnandi hjá Ístaki þar sem hann stýrði  m.a. upplýsingatæknimálum og stærri verkefnum.

Sigurjón tekur við starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs af Helga Bjarnasyni sem færir sig um set og tekur nú við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs. Helgi tekur við þeirri stöðu af Hermanni Björnssyni, sem nýverið var ráðinn forstjóri Sjóvár. Undir viðskiptabankasvið falla útibú bankans sem eru 24 talsins og stoðeiningar. Á sviðinu starfa um 420 starfsmenn.

Helgi Bjarnason hóf störf hjá bankanum í október 2010. Helgi er stærðfræðingur að mennt og með cand. act. gráðu í tryggingastærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Helgi starfaði sem aðstoðarforstjóri Sjóvár áður en hann hóf störf hjá Arion banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×