Viðskipti innlent

Jóni Ásgeiri og Stefáni var hótað handtöku við rannsókn málsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verjendur sakborninga við aðalmeðferð málsins í gær.
Verjendur sakborninga við aðalmeðferð málsins í gær. mynd/ gva.
Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Stefáni Hilmarssyni, fyrrverandi endurskoðanda fjárfestingafélagsins Gaums og Baugs, var hótað handtöku þegar skattahluti Baugsmálsins var á rannsóknarstigi, ef þeir mættu ekki til yfirheyrslu. Þetta kom fram í máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara þegar málflutningur í skattahluta Baugsmálsins hófst í morgun.

Í málinu eru Jón Ásgeir, Kristín Jóhannesdóttir, systir hans, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs og áður aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, sökuð um stórfelld skattalagabrot ásamt fjárfestingafélaginu Gaumi. Málið hefur velkst lengi í réttakerfinu og var ákæra gefin út í lok árs 2008.

Sakborningum er meðal annars gefið að sök að hafa ekki staðið skil á skattgreiðslum af meðal annars söluhagnaði hlutabréfa, starfshlunnindum á borð við líftryggingariðgjöldum og bifreiðahlunnindum.

Aðalmeðferð málsins hefur staðið yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur frá því á mánudagsmorgun og mun ekki ljúka fyrr en í fyrsta lagi á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×