Viðskipti innlent

ESA samþykkir kaup Íslandsbanka á Byr

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur heimilað fyrir sitt leyti kaup Íslandsbanka á Byr. Tilkynning þess efnis hefur verið birt á vefsíðu ESA.

Fallist er á kaupin með skilyrðum um að kaupin raski ekki samkeppni. Þá er einnig samþykkt að Byr njóti áfram lánafyrirgreiðslu frá íslenska ríkinu, líkt og hingað til.

Tilkynning ES er eftirfarandi:

„Íslandsbanka er heimilt að festa kaup á Byr, þrátt fyrir að hafa áður hlotið ríkisaðstoð.

ESA samþykkti lánafyrirgreiðslu til 6 mánaða til handa Byr í apríl síðastliðnum.

Markmiðið með þeirri ráðstöfun var að endurfjármagna Byr. Síðar kom í ljós að bankinn þurfti á meira eigin fé að halda til þess að uppfylla lagaskilyrði. Bankinn var því settur í opið söluferli sem lauk með því að Íslandsbanki keypti Byr.

Íslandsbanki, líkt og Byr, naut ríkisaðstoðar í kjölfar fjármálakreppunnar.

Við venjulegar kringumstæður er bönkum sem notið hafa ríkisaðstoðar ekki heimilt að festa kaup á samkeppnisaðilum sínum.

Undantekningu frá þessu banni má veita að uppfylltum tveimur meginskilyrðum:

- að kaupin séu nauðsynleg til að tryggja fjármálastöðugleika, og

- að þau feli ekki í sér óþarfa röskun á samkeppni.

Er það álit ESA að þessum skilyrðum sé fullnægt.

Íslandsbanka verður gert að skila áætlun um endurskipulagningu til ESA fyrir hið sameinaða fyrirtæki innan þriggja mánaða frá því að hinn ráðgerði samruni á sér stað. Aætlunin skal innihalda aðgerðir sem miða að því að virk samkeppni ríki á íslenskum bankamarkaði eftir samrunann.

Ákvörðunin í heild sinni, án trúnaðarupplýsinga, verður birt á vefsíðu ESA, eftir u.þ.b. einn mánuð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×