Viðskipti innlent

Enn einn metmánuðurinn í ferðamennsku

Ferðamenn í Reykjavík.
Ferðamenn í Reykjavík.
Samkvæmt nýbirtum tölum frá Ferðamálastofu fóru um 51.600 erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð í september síðastliðnum, sem er aukning upp á rúm 26% frá því í fyrra, samkvæmt morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir að þetta sé jafnframt fjölmennasti septembermánuður frá upphafi hvað erlenda ferðamenn varðar og þar með níundi mánuðurinn í röð sem slíkt met er upp á borðinu, sem á augljóslega við alla mánuði ársins.

Ekki er því við öðru að búast en að stærsta ferðamannaár frá upphafi sé í uppsiglingu og hafa þannig farið um 458.100 ferðamenn um Leifsstöð frá ármótum sem er nálægt því að vera sami fjöldi og á öllu árinu í fyrra, en þá voru þeir 459.300 talsins.

Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins og borið saman við sama tímabil í fyrra eru þeir 19% fleiri nú en þá. Þessi mikla fjölgun erlendra ferðamanna hlýtur að teljast afar jákvæð þróun fyrir íslenska hagkerfið enda eykur þetta gjaldeyrisinnflæði og hefur þar með jákvæð áhrif á þjónustujöfnuð við útlönd.

Þegar helstu markaðsvæði eru borin saman má sjá að aukningin í septembermánuði miðað við sama tíma í fyrra er áfram mest af ferðamönnum frá Norður-Ameríku. Þannig hafa rúmlega 80.400 ferðamenn frá Norður Ameríku farið frá landinu um Leifsstöð á fyrstu níu mánuðum ársins sem er aukning upp á 50 prósent frá sama tímabili í fyrra.

Næstmesta fjölgunin á milli ára er á ferðamönnum frá Norðurlöndum (um 17% aukning) en einnig hefur verið töluverð aukning á ferðamönnum frá Mið- og Suður Evrópu (um 14% aukning).

Líkt og undanfarið létu fleiri Íslendingar undan útþrá sinni nú í september en í sama mánuði í fyrra. Slík fjölgun hefur átt sér stað stöðugt frá því í nóvember árið 2009, þó að apríl 2010 undanskildum þegar Eyjafjallajökull lét til sín taka.

Þannig fóru 30.800 Íslendingar frá landinu um Leifsstöð í september sem er um 11% aukning frá því í september í fyrra. Frá áramótum talið hafa 260.200 Íslendingar haldið erlendis sem er fjölgun upp á 19% frá sama tímabili í fyrra. Þetta er svipaður fjöldi og var á árinu 2004, en töluvert er í land með að fjöldinn verði jafn mikill og á árunum 2006 til og með 2008.

Þegar mest lét, sem var á fyrstu níu mánuðum ársins 2008, var fjöldinn kominn upp í 345.200, sem er um þriðjungi fleiri en nú í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×