Viðskipti innlent

Segja Breta og Hollendinga ekki hafa borið skarðan hlut frá borði

Bréfið sem íslensk stjórnvöld hafa sent Eftirlitsstofnun EFTA þar sem áliti stofnunarinnar frá því í júní vegna Icesave málsins er svarað hefur verið birt á vef viðskiptaráðuneytisins. Í bréfinu er almennt vísað til fyrri sjónarmiða sem Íslendingar hafa sett fram og því mótmælt að rökstutt álit ESA hnekki fyrri röksemdum.

„Rakin er ítarlega staðan við slitameðferð Landsbankans og rökstutt að raunverulega hafi innstæðueigendur í Hollandi og Bretlandi ekki borið skarðan hlut frá borði ef áætlanir um eignavirði búsins standast. Sérstakt fylgiskjal fylgir bréfinu með útreikningum," segir á vef ráðuneytisins. Þá er því mótmælt að viljayfirlýsing íslenskra og hollenskra stjórnvalda frá 8. október 2008 sem ESA byggir á sýni hug íslenskra stjórnvalda til ábyrgðar á innstæðutryggingakerfinu.

Í bréfinu er einnig gerð grein fyrir upplýsingum sem komið hafa fram í undirbúningi Evrópusambandsins að nýrri innstæðutilskipun og ráðuneytið segir þýðingarmiklar. „Harðlega er mótmælt rökum ESA um að ekki geti komið til álita neinar réttlætingarástæður fyrir mismunandi meðferð á innstæðum í innlendum og erlendum útibúum bankanna."

Íslendingar benda einnig á að allir viðurkenni að til verndar innstæðukerfinu grípi ríki til mjög mismunandi aðgerða. „Hvorki vandræði innlendra né erlendra innstæðueigenda Landsbankans voru leyst í gegnum innstæðutryggingakerfið heldur með annars konar aðgerðum (bank resolution) sem eru fullheimilar og áhersla lögð á að ríki hafi frjálsræði sem hentar alvarleika ástands og efnahagslegum veruleika."

Bréfinu lýkur á því að Íslendingar ítreka við ESA kröfu sína þess efnis að stofnunin láti málið niður falla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×