Viðskipti innlent

Ógilda samruna Tals og Vodafone

Samkeppniseftirlitið.
Samkeppniseftirlitið.
Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna kaup Vodafone á símafyrirtækinu Tal. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að að niðurstaða rannsóknar eftirlitsins væri sú að  samruni Vodafone og Tals myndi leiða til verulega aukinnar samþjöppunar á fákeppnismarkaði og til tvíkeppni á ýmsum undirmörkuðum á sviði fjarskipta.

Án íhlutunar yrði staðan sú að aðeins tveir stórir aðilar, Síminn og Vodafone, myndu bjóða heildstæða fjarskiptaþjónustu, auk þess sem nokkrir minni aðilar myndu veita þjónustu á tilteknum afmörkuðum sviðum á smásölumarkaði.

Tal er mikilvægur keppinautur bæði Símans og Vodafone þar sem félagið býður upp á heildarlausnir á sviði fjarskipta á smásölumarkaði og er með meiri breidd í þjónustuframboði en aðrir keppinautar Símans og Vodafone.

Þessi þrjú fyrirtæki eru hin einu hér á landi sem veita heildarfjarskiptaþjónustu á smásölumarkaði sem m.a. heimili nýta sér.

Minni keppinautar á fjarskiptamarkaði eru háðir Símanum og Vodafone um aðgang að fjarskiptanetum þeirra á heildsölustigi til þess að geta veitt fjarskiptaþjónustu í samkeppni við Símann og Vodafone á smásölumarkaði. 

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn myndi draga verulega úr kaupendastyrk þessara minni keppinauta á heildsölustigi og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×