Viðskipti innlent

Mágur Finnboga ráðinn forstjóri Icelandic

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lárus Ásgeirsson, sem ráðinn var í dag forstjóri Icelandic Group, er mágur Finnboga Jónssonar, forstjóra Framtakssjóðs Íslands, eiganda Icelandic Group.

Lárus Ásgeirsson er þriðji forstjóri Icelandic á tíu mánuðum, en fyrirtækið er stærsta útflutningsfyrirtæki landsins á sviði frosinna sjáfarafurða og starfar á alþjóðlegum vettvangi. Framtakssjóðurinn, sem er í eigu sautján lífeyrissjóða, eignaðist Icelandic Group fyrr á þessu ári þegar félagið keypti Vestia af Landsbankanum.

Í tilkynningu Icelandic um ráðningu Lárusar er farið yfir feril hans og hæfni til að stýra Icelandic Group, en þess ekki getið að hann er mágur Finnboga.

Hann hefur reynslu af því að vera framkvæmdarstjóri og staðgengill forstjóra hjá Marel í átján ár. Eftir mjög faglegt ferli var hann ráðinn í þetta starf," segir Herdís Fjeldsted," stjórnarformaður Icelandic Group.

Er þetta ekki óheppileg ráðning í ljósi þess að hann er mágur framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins, eiganda Icelandic Group. Þarna er framkvæmdastjórinn að ráða mág sinn sem forstjóra í dótturfélagi? „Þetta hefur náttúrulega ekkert með það að gera. Þarna er mikil og víðtæk reynsla sem Lárus hefur sem réð þessu."

Hver átti hugmyndina að ráða Lárus? „Við ákveðum þetta í stjórn Icelandic Group. Við fórum í gegnum ferli þar sem þrjátíu og fjórir sóttu um starfið, þrettán voru teknir í viðtal, fjórir af þeim fóru á „shortlist" og sú ákvörðun að lokum tekin að ráða Lárus."

Kom Finnbogi ekki að ráðningu mágs síns? „Finnbogi kom alls ekki að þessari ráðningu. Það var Icelandic Group sem tók ákvörðun um ráðningu forstjóra."

Hann hlýtur að hafa verið spurður eða hafa skoðun á þessu? „Nei, alls ekki. Það var ekki leitað til Finnboga varðandi þessa ráðningu."

Finnbogi Jónsson, sem staddur er erlendis sagði í samtali við fréttastofu rétt fyrir kvöldfréttir að hann hefði enga aðkomu haft að ráðningu Lárusar. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×