Viðskipti innlent

Ekki verið þinglýst jafn mörgum kaupsamningum síðan árið 2007

Húsnæði.
Húsnæði.
Ekki hefur verið þinglýst jafn mörgum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu í einum mánuði og í september síðastliðnum síðan í desember árið 2007 samkvæmt morgunkorni greiningadeildar Íslandsbanka.

Þannig var þinglýst 428 kaupasamningum um íbúðarhúsnæði í september, sem er aukning upp á 29% frá því í september í fyrra en þá voru þeir 331 talsins. Þessi aukning er í takti við þróunina síðustu misserin en allt frá því í nóvember árið 2009 hefur aukning átt sér stað í fjölda kaupsamninga milli ára.

Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins hefur verið þinglýst 3.205 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sem er aukning upp á 68% frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum sem Þjóðskrá Íslands birti um miðja vikuna.

Samhliða því að kaupsamningum hefur farið fjölgandi hefur veruleg fækkun orðið á makaskiptasamningum sem urðu mjög áberandi í kjölfar bankahrunsins.

Slíkir samningar voru orðnir vel yfir þriðjungur allra viðskipta á markaðnum um tíma, og þegar hæst lét frá mars til og með júní árið 2009 voru þeir á bilinu 40%-50% allra samninga á höfuðborgarsvæðinu.

Nú í septembermánuði voru makaskiptasamningar á höfuðborgarsvæðinu aðeins 15 talsins, eða sem nemur um 3,5% af heildarfjölda kaupsamninga um íbúðarhúsnæði, og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra síðan í nóvember árið 2007.

Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins hafa makaskiptasamningar verið að meðaltali rúm 8% af fjölda samninga en á sama tímabili í fyrra voru þeir að meðaltali um 22% af fjölda samninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×