Viðskipti innlent

Bjóða sjómönnum skrímslatryggingu

Þorvaldur Friðriksson skrímslasérfræðingur hélt fyrirlestur um skrímsli við Íslandsstrendur í sýningarbás Varðar í gær.
Þorvaldur Friðriksson skrímslasérfræðingur hélt fyrirlestur um skrímsli við Íslandsstrendur í sýningarbás Varðar í gær.
Tryggingafélagið Vörður býður nú sjómönnum svokallaða skrímslatryggingu í tilefni af því að Sjávarútvegssýningin stendur nú sem hæst í Fífunni í Kópavogi. Með tryggingunni er ætlunin að vekja  athygli á þeim hættum sem sjófarendum eru búnar.

Í samstarfi við Skrímslasetrið á Bíldudal hefur verið komið upp vísi að skrímslasafni á sýningunni, þar sem lesa má um raunir og reynslu íslenskra sjómanna af margvíslegum skrímslum.

Þorvaldur Friðriksson skrímslasérfræðingur hélt fyrirlestur um skrímsli við Íslandsstrendur í sýningarbás Varðar í gær.

„Sjómenn hafa um aldir stundað hættuleg störf og jafnvel þurft að glíma við skrímsli til þess að komast heilir heim og þurfa því góðar tryggingar,“ segir í tilkynningu frá Verði.  „Fyrst íslenskra tryggingafélaga býður Vörður nú víðtæka skrímslatryggingu. Skrímslatryggingin bætir þó ekki allan skaða af skrímslum því sérstaklega er kveðið á um að hún bæti ekki tjón sem stafa frá finngálkni, marbendli, fjörulalla, nenni, einfótungi, Kleifarvatns-skrímslinu, Katanesdýrinu eða Lagarfljótsorminum. Engar bætur fást heldur ef skaði verður af völdum skrímsla sem eru friðuð vegna gildis þeirra fyrir ferðamannaþjónustu", bætir Atli Örn  Jónsson, nýráðinn framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs félagsins við brosandi.

VÍÐTÆK SKRÍMSLATRYGGING fyrir sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki

1. gr. Hvað er vátryggt?

Skrímslatrygging tekur til lífs og lima vátryggðra sem staðsettir eru á því skipi sem tiltekið er í vátryggingar- skírteini. Um líf og limi vátryggðra sem staðsettir eru fyrir utan skip eru ákvæði í 3. gr. þessara skilmála. Skrímslatrygging gildir aðeins í íslenskri fiskveiðilögsögu.

2. gr. Skrímslatrygging bætir tjón á lífi og limum sem verða af völdum:

2.1 Beinnar árásar skrímslis, truflunar af völdum skrímslis eða eitrunar frá spúandi skrímsli. Ógleði og uppköst án þess að vátryggður verði að hætta vinnu af þeim sökum telst ekki eitrun í skilningi þessarar greinar.

2.2 Sótfalls sem verður óvænt og skyndilega frá eldspúandi sjávar-dreka eða ófreskju. Ekki er bætt tjón af sóti eða reyk sem myndast smám saman á meðan dreki eða ófreskja er að kanna aðstæður til árásar en hættir svo við.

2.3 Lífgunar-, björgunar-, læknis- og hreinsunaraðgerða af völdum bótaskyldrar árásar skrímslis. 2.4 Skólps, slíms eða eiturmettaðs salla sem óvænt og skyndilega streymir fram og á upptök sín í skrímsli, í kjafti þess, nasaborum eða öðrum frárennslisopum á skrímsli. Hægur leki eða smit sem kemur smám saman fram telst ekki bótaskylt tjón í skilningi þessarar greinar.

3. gr. Vátryggðir sem staðsettir eru fyrir utan skip

Vátryggingin tekur til lífs og lima vátryggðra sem staðsettir eru utan skips um stundarsakir samkvæmt bótasviði

2. gr. enda hafi þeir fallið fyrir borð vegna árásar skrímslis eða séu þar á sundi að skipun yfirmanns í þeim tilgangi að reyna að hræða skrímsli í burt. Almennir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækis á skrifstofum, þar með taldir framkvæmdastjóri og aðrir æðstu yfirmenn, starfsmenn í frystihúsi, á netaverkstæðum, í beitningar- skúrum eða í öðru sambærilegu vinnuhúsnæði, sem varanlega eru staðsett annars staðar en á skipinu, falla ekki undir þessa vátryggingu.

4. gr. Ásetningur eða stórkostlegt gáleysi vátryggðra

4.1 Ef tjón verður rakið til þess að vátryggðir af ásetningi espa eða egna skrímsli til árása með því að segja að það sé ekki til í alvörunni fellur bótaábyrgð félagsins niður.

4.2 Valdi vátryggðir tjóni af stórkostlegu gáleysi eða vegna þess að þeir höfðu í hótunum við skrímsli, stríddu því eða sýndu af sér aðra ótilhlýðilega framkomu í návist skrímslis getur það leitt til takmörkunar eða brottfalls bótaábyrgðar félagsins skv. 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar um váðaverk.

5. gr. Vátryggingin bætir ekki:

5.1 Tjón á fiskifræðingum, sjávarútvegsráðherrum, fiskeftirlitsmönnum og skattheimtumönnum. 5.2 Tjón sem verður vegna skrímsla, sem eru friðuð vegna gildis þeirra fyrir ferðamannaþjónustu, eða vegna

skrímsla sem hafa sloppið úr skrímslaeldiskvíum. 5.3 Andlegt tjón sem vátryggðir mega líða vegna þess að enginn fæst til þess að trúa því að þeir hafi orðið fyrir árás skrímslis.

6. gr. Almenn undanþága frá bótaskyldu

Skrímslatrygging bætir ekki tjón sem stafa frá finngálkni, marbendli, fjörulalla, nenni, einfótungi, Kleifarvatns- skrímslinu, Katanesdýrinu og Lagarfljótsorminum.

7. gr. Lög um vátryggingarsamninga

Að öðru leyti, en því sem kveðið er á um í þessum skilmálum, gildir um þennan vátryggingarsamning Rekabálkur Jónsbókar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×