Viðskipti innlent

Ráðning Þorgeirs herkænskuleg til að fá lífeyrissjóði að borðinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Seðlabankinn vill fá helstu lífeyrissjóði landsins að samningaborðinu í gjaldeyrisútboðum bankans, en þau eru forsenda afnáms gjaldeyrishaftanna. Ráðning Þorgeirs Eyjólfssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í starf verkefnisstjóra við afnám haftanna var meðal annars til að ná þessu markmiði.

Gott gengi í gjaldeyrisútboðum er ein af forsendum þess að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftunum innan skynsamlegra tímamarka. Þau ganga þannig fyrir sig að Seðlabankinn býður í aflandskrónur erlendra eigenda og selur þær svo aftur hér innanlands gegn gjaldeyri, en draga þarf úr krónueignum útlendinga til þess að hægt sé að ráðast í almenna afléttingu haftanna. Á haustþingi var heimild fyrir höftunum framlengd til ársins 2013.

Seðlabankinn gekk nýlega frá ráðningu Þorgeirs Eyjólfssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í tímabunda stöðu verkefnisstjóra við afnám gjaldeyrishafta. Þorgeir sætti nokkurri gagnrýni eftir hrunið vegna fjárfestinga lífeyrissjóðsins en sjóðurinn tapaði að minnsta kosti fimmtungi eigna sinna. Þá fór Lífeyrissjóður verzlunarmanna ekki varhluta af gagnrýni vegna kostnaðarsamra boðsferða sem stjórnendur lífeyrissjóðanna fóru í á vegum bankanna fyrir hrun.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur ráðning Þorgeirs vakið blendin viðbrögð í Seðlabankanum. Einhverjir starfsmenn Seðlabankans hafa, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, gert athugasemdir við menntun hans og efast um hæfni hans og þekkingu til að gegna starfinu. Þorgeir er ekki hagfræðingur og hefur ekki reynslu af gjaldeyrishöftum en hann lauk gráðu í fjármálum frá Bifröst og lauk einnig stjórnendanámi frá Harvard-háskóla árið 1998.

Heimildarmenn fréttastofu innan Seðlabankans segjast fagna ráðningu Þorgeirs og að um „strategíska" ráðningu sé að ræða. Þorgeir sé gamall reynslubolti úr lífeyrissjóðakerfinu, en hann stýrði Lífeyrissjóði verzlunarmanna í aldarfjórðung, og gjörþekki stjórnendur annarra sjóða og starfsumhverfi lífeyrissjóða, en Seðlabankinn legði á það áherslu að fá lífeyrissjóðina að samningaborðinu í gjaldeyrisútboðunum.

Einn heimildarmaður sagði að lífeyrissjóðirnir væru stærstu fagfjárfestar á Íslandi og þeirra hegðun geti verið stefnumarkandi fyrir aðra fjárfesta, bæði innlenda og erlenda. „Fyrsti hluti þessa uppboðsferlis gekk út á að reyna að fá lífeyrissjóðina að borðinu. Menn voru að reyna að höfða til þeirra. Það verður erfitt að gera þetta nema aðilar eins og lífeyrissjóðirnir séu að vinna með okkur," sagði hann. Vonir stæðu til þess að með Þorgeir innanborðs myndi það ganga betur. Ekki náðist í Þorgeir Eyjólfsson við vinnslu fréttarinnar. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×