Viðskipti innlent

Spá hækkun fasteignaverðs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greiningardeild Arion gerir ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka.
Greiningardeild Arion gerir ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka. Mynd/ Villi.
Íbúðaverð mun hækka á næstu árum þrátt fyrir áframhaldandi slaka í hagkerfinu, segir greiningadeild Arionbanka. Í greinargerð um fasteignamarkaðinn segir að hægt hafi á brottflutningi frá Íslandi og eftirspurn eftir íbúðum muni aukast. Framboð næstu ára muni ekki halda í við eftirspurn þar sem nýbygging verður nær engin vegna þess hve byggingakostnaður er hár. Nýframkvæmdir munu aðeins hefjast þegar markaðsverð hefur hækkað í átt að byggingarkostnaði. Því megi búast við skorti á íbúðum þegar líða tekur á árið 2013.

Greiningardeildin segir óhætt að fullyrða að skrýtin staða sé komin upp á fasteignamarkaði. Mikill fjöldi ókláraðra íbúða sé til staðar en nýbygging sé svo gott sem engin. Greiningardeild spáir verðhækkun á næstu árum en hækkunin verður ekki mikil sökum þess að kaupmáttur heimila verður áfram lítill og fjármálaleg skilyrði heimila enn erfið.

Greiningadeildin segir að ókláraðar íbúðir sem byrjað var á fyrir hrun muni sjá íbúðakaupendum fyrir húsnæði næstu misseri. Nýbygging sé lítil sem engin um þessar mundir en hún muni einungis taka við sér þegar markaðsverð fasteigna hækki eða byggingarkostnaður lækkar. Eins og staðan er í dag sé byggingarkostnaður almennt um 26% yfir markaðsverði fasteigna. Fari nýbygging ekki að aukast á næstu misserum muni skortur á íbúðum gera vart við sig þegar líða fer á árið 2013.

Rétt er að taka fram að þessi greining Arionbanka gengur þvert á spá sem unnin var fyrir eignastýringaþjónustu Íslandsbanka, þar sem gert er ráð fyrir 30-50% lækkun, auk þess sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir frekari lækkun fasteignaverðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×