Viðskipti innlent

Segja minnisblað til ráðherra vera rangt

Norðurál segir rangt að aðeins hafi verið viðræður í gangi við Magma um kaup á HS Orku, eins og fullyrt er í minnisblaði til ráðherra. Höfundur minnisblaðsins segir pólitíska andstöðu hafa verið gegn eign orkukaupanda á orkufyrirtæki.
Fulltrúar Norðuráls segja minnisblað Einars Karls Haraldssonar, þáverandi upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um málefni Helguvíkurverkefnis ekki rétt. Ranglega sé farið með stöðuna varðandi kauptilboð Norðuráls í HS Orku.

Minnisblaðið er dagsett 30. mars 2010. Þar er fullyrt að ekki standi viðræður yfir við aðra aðila en Magma um kaupin að svo stöddu og sagt að hugmyndir Norðuráls og Framtaks um verð hafi verið fjarri hugmyndum Íslandsbanka, sem seldi hlutinn fyrir hönd Geysis Green Energy.

Ágúst H. Hafberg hjá Norðuráli segir þetta einfaldlega ekki rétt. „Ég skil þetta ekki því helgina áður en minnisblaðið var skrifað var okkur tilkynnt að setja ætti hlutinn í söluferli. Minnisblaðið er því alltaf rangt, hver svo sem ástæðan fyrir því er."

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu á föstudag bauð Norðurál í hlut GGE í HS Orku. „Ég get staðfest það að Norðurál tók þátt í söluferli á bréfum í HS Orku sem Íslandsbanki hélt utan um. Íslandsbanki ákvað að selja hlutabréfin í HS til Magma. Við erum sannfærð um að okkar tilboð hafi verið mjög samkeppnishæft en samt sem áður var tilboði Magma tekið," sagði Ágúst þá í samtali við Fréttablaðið.

Einar Karl segir minnisblaðinu hafa verið ætlað að varpa ljósi á þá staðreynd að Magma væri í viðræðum um meirihluta kaup í fyrirtækinu og ekki væru viðræður við aðra um kaupin. Ríkisstjórnin hafi hins vegar ekki verið aðili að málinu og stjórnvöld ekki haft áhrif á hverjum hluturinn var seldur.

„Það var hins vegar almennt pólitískt viðhorf, bæði innan Samfylkingar og Vinstri grænna, að ekki væri eðlilegt að álfyrirtæki, sem kaupandi að orku, ætti í orkufyrirtækinu. Það væru ekki eðlilegir viðskiptahættir að sá sem semdi um kaup á orkunni væri líka eigandi í fyrirtækinu."

Fréttablaðið óskaði eftir samtali við Birnu Einarsdóttur, forstjóra Íslandsbanka, fyrir helgi, en fékk ekki, en þess í stað var send út tilkynning. „Það skal upplýst að á lokametrum söluferlisins höfðu borist tvö tilboð í hlutabréf GGE í HS Orku. Farið var yfir tilboðin og þau metin á hlutlægan hátt og gengið var að því tilboði sem metið var hærra," segir í yfirlýsingunni.

Frekari spurningum Fréttablaðsins um málið var vísað til Geysis Green Energy.
kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×