Viðskipti innlent

Kynbundin launamunur enn 10%

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stefán Einar Stefánsson er formaður VR.
Stefán Einar Stefánsson er formaður VR. Mynd/ Arnþór.
Kynbundinn launamunur hefur haldist óbreyttur síðastliðin þrjú ár og er um 10%. VR ætlar að ráðast í sérstakt átak til þess að útrýma þessum mun.

Launakönnun VR var gerð í febrúar og mars síðastliðnum og miðast við greidd laun í janúar 2011. Könnunin var send til 23 þúsund félagsmanna og var svarhlutfall um 45%.  Samkvæmt könnuninni voru heildarlaun félagsmanna VR að meðaltali 441 þúsund krónur á mánuði í janúar 2011 sem er 4,5% hærra en á sama tíma árið 2010. Grunnlaun voru rúmlega 411 þúsund krónur sem er 4,2%  hærra en árið áður. Samkvæmt könnuninni eru þeir launahæstu að meðaltali með 750 þúsund krónur í laun á mánuði á meðan þeir launalægstu eru með 250 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Á árunum 2001 til 2009 náðist marktækur árangur við að minnka kynbundinn launamun karla og kvenna innan VR en þá lækkaði hann úr 13,8% árið 2001 í 10,1% árið 2009. Síðustu þrjú árin hefur kynbundinn launamunur hins vegar haldist nánast óbreyttur í kringum 10%. 

Í dag var greint frá átaki sem til stendur að ráðast í til þess að reyna að útrýma þesusm launamun kynjanna. Það hefst með auglýsingum á sjónvarpsstöðvunum í kvöld en verður síðan framhaldið á næstu dögum og vikum. Þá verða fyrirtæki hvött til að lýsa stuðningi við átakið og veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu á tímabilinu 20.-26. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×