Viðskipti innlent

Sala á nautakjöti aukist um tæplega 21 prósent

Boði Logason skrifar
Nautakjöt
Nautakjöt mynd úr safni
Sala á nautakjöti í ágúst síðastliðnum var 20,6 prósent meiri en á sama tíma í fyrra en þetta kemur fram í nýjum framleiðslu- og sölutölum sem Bændasamtökin hafa látið taka saman.

Þrátt fyrir aukninguna í mánuðinum var ársfjórðungssalan 0,3 prósent minni en í fyrra. Á heimasíðu samtakana segir að þessi mikla sölu aukning í ágúst hafi leitt til þess að árssalan, þ.e. salan síðastliðna 12 mánuði, er nú 0,5% meiri en 12 mánuðina þar á undan.

„Heildarframleiðsla nautgripakjöts sl. 12 mánuði var 3.799 tonn af 26.870 tonna framleiðslu kjöts í það heila og er hlutdeild nautakjötsins því 14,1% í framleiðslunni. Alls nam sala nautgripakjöts í mánuðinum 345 tonnum og sl. 12 mánuði var salan 3.827 tonn. Sé horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mánuðinum var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 194 tonn og á 12 mánaða grunni nemur ungnautakjötssalan 2.176 tonnum eða 56,8% af heildarsölunni. Sala á kýrkjöti á ársgrunni nam 1.360 tonnum eða sem nemur 35,8% af heildarsölunni," segir á heimasíðunni.

Þar segir einnig að sé litið til annarra kjöttegunda komi í ljós að heildarsalan hefur dregist saman síðustu tólf mánuði um 3,9 prósent og sýni einungis nautgripakjöt söluaukningu frá því fyrir ári.

„Mest er salan á alífuglakjöti á landsvísu eða 6.926 tonn (29,8%) og þar á eftir kemur svínakjöt með 6.008 tonn eða 25,8% markaðshlutdeild. Er þetta í fyrsta skipti í tvö ár sem svínakjötssala fer upp fyrir kindakjötið. Þess ber að geta að litlu munar á þessum kjöttegundum enda situr kindakjöt í þriðja sæti með sölu upp á 5.944 tonn (25,6% markaðshlutdeild)/SS.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×