Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður skilaði ríflegum rekstrarafgangi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Um 1,5 milljarða afgangur var af rekstri Íbúðalánasjóðs á fyrri helmingi ársins, samkvæmt hálfsársuppgjöri sem samþykkt var í stjórn sjóðsins í dag. Á sama tíma í fyrra var um 1,6 milljarða tap á rekstri sjóðsins.

Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs til Kauphallarinnar segir að breytinguna megi rekja til bakfærslu á framlögum í afskriftarsjóð þar sem 5000 umsóknir bárust um 110% leið stjórnvalda en gert var ráð fyrir 9400 umsóknum.

Rekstrarkostnaður hefur aftur á móti aukist á milli ára vegna fjölgunar starfsmanna við úrvinnslu umsókna, umsýslu fasteigna og vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu leigufélaga auk þess sem mikill einskiptis kostnaður fellur til við innlausn fasteigna.

Eigið fé Íbúðalánasjóðs þann 30. júní síðastliðinn var rúmir 10 milljarðar króna samanborið við 8,6 milljarða í árslok 2010. Eiginfjárhlutfall sjóðsins sem reiknað er samkvæmt ákvæðum í reglugerð um Íbúðalánasjóð er nú 2,4% en var 2,2% í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×