Viðskipti innlent

Arion býður óverðtryggð íbúðalán

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er spurning hvaða áhrif útspil Arion banka mun hafa á fasteignamarkaðinn í Reykjavík. Mynd/ Vilhelm.
Það er spurning hvaða áhrif útspil Arion banka mun hafa á fasteignamarkaðinn í Reykjavík. Mynd/ Vilhelm.
Arion banki hefur ákveðið að bjóða óverðtryggð húsnæðislán og mun bjóða slík lán frá 15. september til 25 eða 40 ára. Lánin eru með föstum vöxtum til fimm ára. Á fimm ára fresti eru vextirnir endurskoðaðir og taka mið af markaðsvöxtum sem í gildi eru á hverjum tíma. Viðskiptavinir geta einnig valið aðra kosti ef þau óverðtryggðu kjör sem þá bjóðast eru óhagstæð.

Samkvæmt tilkynningu frá Arion verður um tvennskonar óverðtryggð lán að ræða. Annars vegar lán sem nema allt að 60% veðhlutfalli fasteignar, bera 6,45% fasta vexti í fimm ár og eru til 25 eða 40 ára. Hins vegar viðbótarlán sem nema frá 60% til 80% veðhlutfalli fasteignar, bera 7,55% fasta vexti i fimm ár og eru til allt að 25 ára. Til að eiga kost á láni þurfa viðskiptavinir að standast greiðslumat bankans.

Arion banki segir að um sé að ræða nýjung á íslenskum fjármálamarkaði þar sem binding hagstæðra, óverðtryggðra vaxta til fimm ára hafi ekki áður boðist lántakendum. Þar að auki geti viðskiptavinir að fimm árum liðnum valið á milli annarra kosta, svo sem að breyta láninu í verðtryggt lán eða greiða það upp án sérstaks uppgreiðslugjalds.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×