Viðskipti innlent

Eignir duga fyrir öllum forgangskröfum - líka Icesave

Hafsteinn Hauksson skrifar
Eignir þrotabús gamla Landsbankans duga fyrir öllum forgangskröfum á bankann og gott betur samkvæmt nýjasta endurmati á eignasafni þess. Formaður skilanefndar bankans segir þó að það sé stjórnmálamanna að segja til um lyktir Icesave málsins.

Tilkynnt var um endurmat á eignasafni þrotabús gamla Landsbankans á fundi á Nordica í dag. Þar greindi Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar bankans, frá því að virði eigna þess hefði aukist um rúma 45 milljarða á öðrum fjórðungi ársins, en þriðjungur upphæðarinnar er vegna gengisbreytinga.

Endurheimtur upp í kröfur á bankann eru því nú áætlaðar um 1.332 milljarðar króna miðað við gengi krónunnar þegar kröfum var lýst, en forgangskröfur á bankann, sem eru einkum komnar til vegna Icesave innlánanna og heildsöluinnlána bankans erlendis, nema 1.319 milljörðum.

Það merkir að endurheimturnar duga fyrir öllum forgangskröfum, og 13 milljarðar til viðbótar hrökkva til upp í almennar kröfur.

Lárentsínus segir að þetta mat eignanna sé varfærið, og ef allt fari á besta veg gæti búið jafnvel átt frekari virðisaukningu inni.

„Þetta horfir þannig við okkur að þessar icesave kröfur, þær kröfur sem komast í búið, verða borgaðar að fullu," segir Lárentsínus sem segir það þó stjórnmálamanna að svara frekar spurningum um Icesave.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×