Viðskipti innlent

Önnur skuldabréfaútgáfa Landsvirkjunar nýtur betri kjara en hjá ríki

Landsvirkjun.
Landsvirkjun.
Önnur skuldabréfaútgáfa Landsvirkjunar (LV) á stuttum tíma leit dagsins ljós í gær þegar fyrirtækið tilkynnti um sölu á skuldabréfum að fjárhæð 63,2 m. Bandaríkjadollara, jafnvirði u.þ.b. 7,3 ma.kr., samkvæmt morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir ennfremur að bréfin eru til 7 ára og eru þau seld á 4,3% ávöxtunarkröfu. Vaxtagreiðslur eru árlegar en höfuðstóllinn er endurgreiddur í einu lagi á lokagjalddaga. Arctica Finance hf. er umsjónaraðili með útgáfunni.

Fyrir rúmri viku tilkynnti Landsvirkjun um 70 m. dollara útgáfu til tíu ára. Ber sú útgáfa 4,9% vexti sem greiðast hálfsárslega en höfuðstóllinn er endurgreiddur á lokagjalddaga.

Fyrirtækið hefur því aflað ríflega 133 m. dollara á síðustu dögum. Segir í fréttatilkynningum LV að fénu verði meðal annars varið til framkvæmda á Norðausturlandi sem áætlað er að hefjist á næsta ári. Þá er í tilkynningum fyrirtækisins sagt að þar sé að hluta um endurfjármögnun að ræða, en samkvæmt hálfsársuppgjöri LV námu afborganir langtímaskulda frá 1. júlí síðastliðnum til júlíloka á næsta ári 197 m. dollara.

Athygli vekur hversu hagstæðra kjara Landsvirkjun nýtur um þessar mundir, ef marka má útboðin tvö. Að því gefnu að 10 ára útgáfan hafi verið seld á pari, og að ávöxtunarkrafa þeirrar útgáfu sé 4,9% líkt og nafnvextirnir, má álykta sem svo að fyrirtækið njóti hagstæðari kjara en ríkissjóður, hvort sem miðað er við dollara eða krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×