Viðskipti innlent

Aftur útboð á ríkisbréfum - þátttaka dræm síðast

Næstkomandi föstudag kl. 11:00 fer fram útboð á ríkisbréfum hjá Lánamálum ríkisins samkvæmt morgunkorni Íslandsbanka.

Líkt og í síðastliðnum þremur útboðum verða bréf til sölu í óverðtryggðu flokkunum RIKB13 og RIKB16 í boði. Er útboðið í samræmi við útgáfuáætlun Lánamála og eru útboðsskilmálarnir með hefðbundnum hætti þannig að lægsta samþykkta verð (hæsta ávöxtunarkrafa) ræður söluverði útboðsins.

Óhætt er að segja að þátttaka í síðasta ríkisbréfaútboði þann 19. ágúst þar sem í boði voru sömu flokkar og eru á föstudag hafi verið í minna lagi. Þannig bárust tilboð að fjárhæð 1.005 m.kr. í RIKB13 og var þeim öllum hafnað. Í RIKB16 bárust tilboð fyrir 3.550 m.kr. og var þeim tekið fyrir 2.100 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 5,16% sem var í takti við kröfu bréfanna þennan daginn. Eftir þetta útboð höfðu Lánamál selt bréf í RIKB16 fyrir um 12,5 ma.kr. það sem af er þriðja ársfjórðungi en þau áforma að selja bréf í flokknum fyrir 3-15 ma.kr. á fjórðungnum. Á sama tíma hafa þau selt bréf í RIKB13 fyrir 8,5 ma.kr. en áætluð útgáfa í flokknum er 5-10 ma.kr. á þriðja fjórðungi.

Undirtektirnar í síðasta útboði má rekja til vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem fór fram tveimur dögum fyrir útboðið. Viðbrögðin á  fjármálamarkaði báru þess augljós merki að ákvörðun hennar um hækkun vaxta hafi komið markaðinum í opna skjöldu, en almennt virtist markaðurinn búast við óbreyttum vöxtum.

Hækkaði því krafa óverðtryggða bréfa í kjölfarið og hafði ákvörðunin mun meiri áhrif á kröfu RIKB13 en RIKB16, enda um styttri flokk að ræða og því eðlilegt að breyttar vaxtavæntingar til skemmri tíma hafi meiri áhrif á hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×