Viðskipti innlent

Útgjöld hækkuðu um 3%

JHH skrifar
Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 23,6 milljarða króna á öðrum fjórðungi ársins, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta er nokkru hagstæðari niðurstaða en á sama tíma í fyrra, en mun lakari afkoma en á fyrsta ársfjórðungi 2011. Þá var hún neikvæð um 17 milljarða króna. Tekjuhallinn nam 5,9% af landsframleiðslu ársfjórðungsins og 14,4% af tekjum hins opinbera.

Heildartekjur hins opinbera hækkuðu um 5% milli 2. ársfjórðungs 2010 og 2011 eða úr 156,1 milljarði króna í 163,8 milljarða króna. Tekjuhækkunin skýrist af 6 milljarða króna aukningu í tekjusköttum, 2 milljarða króna aukningu í vöru- og þjónustusköttum og 0,6 milljarða króna meiri tekjum af tryggingagjöldum. Aðrar tekjur ríkissjóðs drógust hins vegar saman um 1,2 milljarða króna milli umræddra tímabila.

Heildarútgjöld hins opinbera hækkuðu um 2,8% á sama tíma eða úr 182,3 milljörðum króna 2010 í 187,4 milljarð króna 2011. Sú útgjaldahækkun skýrist af ríflega 4 milljarða króna hækkun í félagslegum tilfærslum til heimila, 2,2 milljarða króna aukningu í launakostnaði og 2,0 milljarða króna hækkun í kaupum á vöru og þjónustu. Á móti vegur um 2 milljarða króna lækkun í fjárfestingu og 1,2 milljarða króna lækkun í vaxtakostnaði og öðrum útgjöldum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×