Viðskipti innlent

Þeim fjölgar sem eru í alvarlegum vanskilum

Einstaklingum í alvarlegum vanskilum hefur fjölgað um tæp tíu prósent frá áramótum. Á þriðja tug þúsunda var í alvarlegum vanskilum um síðustu mánaðarmót en ungt fólk er einna verst statt.

Tæplega tuttugu og sex þúsund einstaklingar voru í alvarlegum vanskilum um síðustu mánaðarmót og hefur þeim fjölgað úr rúmlega tuttugu og þrjúþúsundum frá áramótum. Að vera í alvarlegum vanskilum merkir það að kröfur hafa verið í vanskilum í 90 til 180 daga, og oft hafa málin farið fyrir dóm. Hákon Stefánsson er framkvæmdastjóri Creditinfo. Hann segir að þeir einstaklingar og fyrirtæki sem lenda í þessu geti lent í erfiðleikum við að leysa sín mál.

Hlutfall einstaklinga í alvarlegum vanskilum er hæst á Reykjanesi, tæplega 16%, en lægst mælist hlutfallið á Norðurlandi Vestra, 6%. Rúmlega fjórtán þúsund manns eru í þessum sporum á höfuðborgarsvæðinu eða 9,4%. Ástandið hjá unga fólkinu í landinu er einna verst, en rúmlega fimm þúsund einstaklingar á aldrinum 18 til 29 ára eru í alvarlegum vanskilum og tæplega sjöþúsund á aldrinum þrjátíu til þrjátíu og níu ára. Stefán segist halda að aukning á vanskilum yngsta aldurshópsins sé um 30 prósent frá árinu 2009.

„Svo virðist sem afleiðingar hrunsins, ef menn nota það sem skurðpunkt, séu að koma seinna fram, sem kannski tengist svo aftur þeim úrræðum sem stjórnvöld fóru í og þeim frystingum sem bankarnir tóku upp á, að frysta lán, og annað þess háttar. Það er að segja, þegar þeim sleppir þá er eins og að fólk sé einfaldlega ekki í þeirri stöðu að ráða við þær skuldbindingar sem það var að taka á sig fyrir hrun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×