Viðskipti innlent

Lánin færð niður um 144 milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lán heimila höfðu í lok júlí síðasliðin verið færð niður um 143,9 milljarða króna frá bankahruni. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa aflað meðal aðildarfélaga sinna, hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum. Þar kemur einnig fram að rúmlega 87 þúsund lántakar hafa fengið eða leitað eftir niðurfærslu hjá fjármálafyrirtækjum, Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum á grunni 110% leiðar, sértækrar skuldaaðlögunar og endurútreiknings á gengistryggðum fasteignaveðlánum og bílalánum.

Samtök fjármálafyrirtækja segja að í lok júlí hafi um 79.600 mál verið afgreidd og tæplega 1.300 umsóknum verið hafnað hjá lánveitendum. Um 6.200 mál séu enn í vinnslu og því ljóst að talan 143,9 milljarðar eigi eftir að hækka þegar úrvinnslu þeirra mála lýkur.

Sótt hafði verið um niðurfærslu rúmlega 13.400 lána á grunni hinnar svokölluðu 110% leiðar. Samþykktar höfðu verið um 7.500 umsóknir, um 1.100 hafnað og tæplega 4.800 umsóknir voru enn í vinnslu. Afgreiðsla þessara mála hefur leitt til niðurfærslu á lánum upp á 18,7 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×