Viðskipti innlent

Ekki í aðstöðu til að gagnrýna

"Það er grafalvarlegt mál þegar hagfræðiprófessor sem ætlar sér að gagnrýna útreikninga biður ekki um útreikninga og skýringar frá samtökunum sjálfum," segir Andrea Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þórólfur Matthíasson, deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, gerði í laugardagsblaði Fréttablaðsins athugasemdir við útreikninga samtakanna á verðtryggingu lána.

Hagsmunasamtökin bíða nú niðurstöðu umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar samtakanna. Þau vilja meina að reglur Seðlabanka Íslands um að leggja skuli verðtryggingu ofan á höfuðstól lána standist ekki lög.

Andrea segir Þórólf ekki vera í aðstöðu til að gagnrýna tölurnar, þar sem hann styðjist ekki við tölur sem samtökin hafi lagt fram.

Þórólfu hafi skoðað útreikninga sem lögfræðingurinn, sem skrifaði greinargerðina sem um er rætt, hafi verið að leika sér með í vinnuskjali.

"Við teljum því að Þórólfur sé ekki að bera saman raunveruleg lán, sem við höfum verið að bera saman, og mismuninn á heildarkostnaði lána," segir Andrea.

Hún bætir við að samtökin telji vilja löggjafans með upphaflegu löggjöfinni teikna upp mynd af útreikningum sem séu eins og þeir sem í dag eru notaðir til að reikna óverðtryggð lán.

"Óverðtryggð lán er í raun rangnefni því með þeim er verðbólgan tekin inn í vextina og staðgreidd. Þetta eru í raun verðtryggð lán þannig að upphaflegt lán er verðbætt í þeirri mynd sem löggjafinn ætlar með verðtryggingu, með breytilegum vöxtum sem eru staðgreiddir. Framkvæmdin eins og hún er í dag á verðtryggðum lánum er óheimil að okkar mati, og um það snýst kæran til Umboðsmanns Alþingis," segir Andrea. - kg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×