Viðskipti innlent

Alltaf verið 20% tollur á makríl til ESB

Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ segir að alltaf hafi verið til staðar 20% innflutningstollur á íslenskum makríl til ESB. Tollinn sé að finna í upprunalegu samkomulagi EES um fiskafurðir frá árinu 1992.

Tollurinn sem hér um ræðir er eingöngu á ferskan eða heilfrystan makríl. Aðrar makrílafurðir bera mun minni tolla.

„Það sem síðan gerist er að við höfum ekki lent í þessum tolli fyrr en á allra síðustu árum þegar við fórum að veiða makríl að ráði," segir Sveinn Hjörtur sem bætir því við að sennilega sé ómögulegt að afnema þennan toll eins og staðan er í dag vegna deilu Íslands og Færeyja við ESB um makrílveiðar. Það skipti þó ekki máli þar sem óverulegt magn, ef nokkurt, er flutt héðan af makríl til ESB-landa.

Þá kemur fram í máli Sveins Hjartar að flest allar af okkar helstu fiskafurðum sem seldar eru til ESB-landa séu án tolla eða með innan við 1% tolla.

Það var því um misskilning að ræða í frétt hér á visir.is fyrr í morgun að ESB hefði sett sérstakan 20% toll á makrílafurðir Íslendinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×