Viðskipti innlent

Seðlabankinn ryksugar gjaldeyri á markaðinum

Seðlabankinn hefur ryksugað til sín stóran hluta þeirrar veltu sem hefur komið inn á millibankamarkað með gjaldeyri síðastliðið ár.

Þetta segir í Markaðspunktum greiningar Arion banka undir fyrirsögninni „Gat í gjaldeyrisforðanum“. Þar er rætt um að í síðustu viku lauk Seðlabanki Íslands við gjaldeyrisútboð sem miðaði að því að endurheimta þann gjaldeyri sem nýttur var til losa um aðþrengda fjárfesta í júlímánuði.

Þá hafði Seðlabankinn keypt tæpa 15 milljarða af „aflandskrónum“ í skiptum fyrir 69 milljónir evra sem teknar voru af gjaldeyrisforðanum. Fjárfestar sýndu útboðinu lítinn áhuga en Seðlabankinn fékk einungis um 3,4 milljónir evra tilbaka og því minnkaði forðinn um 65,6 milljónir evra eða um 10,7 milljarða króna á einu bretti.

„Má því velta fyrir sér hvort þessum „reglulegu“ gjaldeyrisútboðum sé lokið í bili, eða í það minnsta það form sem notast hefur verið við síðustu tvö skipti, þar sem áhugi á þátttöku virðist vera orðinn lítill sem enginn meðal fjárfesta/lífeyrissjóða. Því verður áhugavert að sjá nánari útfærslu á næstu skrefum í afnámi hafta en væntanlega mun Seðlabankinn gera áhugasömum krónufjárfestum kleift að fjárfesta í fleiri eignum en ríkistryggðum skuldabréfum,“ segir í Markaðspunktunum.

„Seðlabankinn hefur ryksugað til sín stóran hluta þeirrar veltu sem hefur komið inn á millibankamarkað með krónur síðastliðið ár. Frá því í ágúst í fyrra hefur heildarvelta á millibankamarkaði numið um 77 milljörðum króna og hefur Seðlabankinn þar af keypt ríflega helminginn eða um 39 milljarða króna m.v. núverandi gengi evru. Því hefur krónan e.t.v. styrkst minna en ella eða jafnvel veikst fyrir vikið.

Að frátöldum gjaldeyrisviðskiptum Seðlabankans við innlend fjármálafyrirtæki í desember sl. ,sem námu í heild 25 milljörðum kr.  hefur Seðlabankinn safnað, í reglulegum vikulegum kaupum sínum, um 14 milljörðum króna á einu ári.

Ef við gefum okkur að Seðlabankinn muni kaupa gjaldeyri áfram á svipuðum hraða þá mun það taka um 10 mánuði að bæta upp fyrir þann gjaldeyri sem þeir „misstu“ í síðasta gjaldeyrisútboði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×