Viðskipti innlent

Lítið selst af atvinnuhúsnæði utan borgarinnar

Einungis 25 kaupsamningum og afsölum var þinglýst utan borgarinnar í júlí síðastliðnum og hafa þeir ekki verið færri í einum mánuði eins langt aftur og tölur Þjóðskrár ná. Í júlí í fyrra var fjöldinn 38 og í júlí árið þar á undan 50 og má því sjá að um töluverðan samdrátt er að ræða milli ára.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjar tölur frá Þjóðskrá Íslands um atvinnuhúsnæði í júlí s.l. Þá var 107 slíkum samningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu sem er veruleg aukning miðað við aðra mánuði ársins.

„Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hefur verið þinglýst 30% fleiri kaupsamningum og afsölum á höfuðborgarsvæðinu samanborið við sama tíma í fyrra og kemur þessi mikla aukning til vegna fjöldans í júlí,“ segir í Morgunkorninu.

„Ekki er sömu sögu að segja með þróunina á markaði með atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig var þinglýst einungis 25 slíkum samningum í júlí síðastliðnum og hafa þeir ekki verið færri í einum mánuði eins langt aftur og tölur Þjóðskrár ná. Í júlí í fyrra var fjöldinn 38 og í júlí árið þar á undan 50 og má því sjá að um töluverðan samdrátt er að ræða milli ára. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hefur verið þinglýst 6% færri samningum samanborið við sama tímabil í fyrra.“

Þá segir að bíða þurfi eftir fleiri tölum sem sýna vaxandi umsvif á markaðinum með atvinnuhúsnæði til að hægt sé að slá því föstu að sá markaður sé að taka við sér. Ljóst er að fjöldi fyrirtækja er enn í umtalsverðum vandræðum sem setur mark sitt á hvenær og hversu hratt þessi markaður getur tekið við sér.

„Þó svo að velta sé að aukast í sumum greinum og lágt raungengi hjálpi útflutningsgreinunum er rekstrarumhverfi margra fyrirtækja enn frekar bágborið, sem má m.a. sjá með tölum Hagstofu Íslands um fjölda gjaldþrota fyrirtækja á síðustu mánuðum. Í júní síðastliðnum voru alls 137 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta samanborið við 99 fyrirtæki á sama tíma í fyrra,“ segir í Morgunkorninu.

„Þetta jafngildir fjölgun upp á ríflega 38% milli ára og var þetta fimmti mánuðurinn í röð sem slík fjölgun átti sér stað. Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa alls 839 fyrirtæki lagt upp laupana en þau voru 555 á sama tímabili í fyrra og jafngildir þetta aukningu upp á rúm 50%. Eins og kunnugt er varð árið í fyrra metár í fjölda gjaldþrota fyrirtækja, og nokkuð ljóst er að árið í ár komi til með að slá það auðveldlega úr toppsætinu enda er fjöldinn á fyrstu sex mánuðum ársins orðinn 85% af heildarfjöldanum á öllu árinu í fyrra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×