Heimsmarkaðsverð á gulli er í frjálsu falli þessa stundina. Verðið er komið niður fyrir 1.770 dollara fyrir únsuna og hefur því lækkað um tæpa 100 dollara eða nær 5% frá í gærdag.
Eins og fram kom í frétt á visir.is fyrr í dag bendir verðlækkun á gulli til þess að áhættufælni fjárfesta sé í rénun enda hafa hlutabréfamarkaðir verið í plús undanfarna daga ef Asíumarkaðir í nótt eru frátaldir. Rauðar tölur í Asíu í nótt voru hinsvegar vegna þess að Moody´s lækkaði lánshæfiseinkunn Japans.
Í gærmorgun rauf gullverðið 1.900 dollara múrinn um skamma hríð en hefur hrapað síðan. Raunar var umfjöllun um gullviðskiptin á CnN Money nýlega þar sem leitt var líkum að því að um gullbólu væri að ræða og sennilegt að hún mundi springa fyrr eða síðar.
Gullbólan að springa, verðið hrapar
