Viðskipti innlent

OR tapaði 3,8 milljörðum á fyrri helmingi ársins

Tap Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á fyrri hluta ársins nam 3,8 milljörðum króna samanborið við 5.1 milljarðs hagnað á sama tímabili 2010, þegar gengisþróun var hagfelldari en nú.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að regluleg starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur skilaði betri afkomu fyrstu sex mánuði þessa árs en í fyrra. Það má rekja til aukinna tekna og aðhalds í rekstri. Handbært fé frá rekstrinum nam 8,9 milljörðum króna og hækkaði um rúma 2 milljarða króna frá sama tímabili 2010.

Vegna óhagstæðrar gengisþróunar á fyrri helmingi ársins 2011 voru fjármagnsliðir neikvæðir. Þetta gerðist þrátt fyrir hækkun álverðs á tímabilinu, sem eykur bókfært virði innbyggðra afleiða vegna raforkusölusamninga OR til stórnotenda. Hækkun á bókfærðum skuldum vegna tæplega 6% gengislækkunar á tímabilinu vó þyngra.

Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2011 var samþykktur og áritaður af stjórn og forstjóra á fundi stjórnar í dag.

„Það hefur náðst talsverður árangur í lækkun rekstrarkostnaðar hjá fyrirtækinu. Launagreiðslur hafa lækkað, bifreiðakostnaður sömuleiðis og dregið hefur verulega úr fjárfestingum í veitukerfunum. Halda þarf áfram á þeirri braut. Áhrif gengis íslensku krónunnar eru hins vegar neikvæð og skyggja á árangur í rekstri. Enn eru því ærin verkefni framundan," segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR í tilkynningunni.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um rúma 11 milljarða króna á tímabilinu, en voru jákvæðir um tæpa 3 milljarða króna sama tímabil árið áður.

Eigið fé þann 30. júní 2011 var 49,5 milljarðar króna en var 52,8 milljarðar króna 31. desember 2010.

Eiginfjárhlutfall var 16,9% þann 30. júní 2011 en var 18,4% í árslok 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×