Viðskipti innlent

Björgólfur Thor hættir við smíði James Bond snekkju

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson er enn umsvifamikill samkvæmt frétt Guardian þar sem farið er yfir stöðu athafnamannsins.

Þar kemur reyndar fram að efnahagshrunið hafi farið illa með fjárfestinn sem leiddi til þess að hann hætti við að smíða nokkurskonar ofursnekkju, sem hét Mars.

Snekkjan var í smíði á Ítalíu og býr yfir helstu þægindum nútímans, og gott betur. Þannig var gert ráð fyrir þyrlupalli, nokkurskonar bílskúr fyrir tvö mótorhjól í hönnun snekkjunnar.

Þeir sem hönnuðu snekkjuna voru að auki undir áhrifum James Bond-myndanna við þegar þeir teiknuðu hana upp samkvæmt greininni.

Björgólfur, eða Thor, eins og hann er kallaður í bresku viðskiptalífi, hætti við smíði snekkjunnar og leita framleiðendur hennar nú logandi ljósi að öðrum auðkýfingi sem gæti klárað gerð snekkjunnar.

Þrátt fyrir að hafa hætt við smíði snekkjunnar Mars, býr Björgólfur við talsverð þægindi í London, þar sem hann er búsettur. Meðal annars á hann íbúð í Notting Hill hverfinu sem hann keypti á fjórar milljónir punda árið 2000. Andvirði íbúðarinnar í dag, miðað við kaupverð árið 2000, væru þá rúmlega 700 milljónir króna.

Talsmaður Björgólfs neitar því hinsvegar í viðtali við Guardian að hann eigi annað hús í suð-austur Englandi og snekkjuna Element. Þá segir hún að Björgólfur ferðist ekki með einkaþotu.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér, en þar er meðal annars fjallað um líkamlegt hreysti Björgólfs og viðskiptasögu hans.

Annar höfunda greinarinnar er Sigrún Davíðsdóttir, fréttakona RÚV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×