Viðskipti innlent

Vafi á rekstrarhæfi Olís

Olís. Myndin er úr safni.
Olís. Myndin er úr safni.
Olís kann að eiga í verulegum rekstrarerfiðleikum en Viðskiptablaðið greindi frá því í blaðinu sínu á fimmtudaginn að vafi kunni að leika á rekstrarhæfi félagsins. Helstu ástæður þess eru tæplega tveggja milljarða króna lán félagsins sem féll á gjalddaga í maí 2011.

Olís á 1,4 milljarða króna kröfu á móðurfélag sitt sem er með neikvætt eigið fé og að félagið gjaldfærir ekki 560 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna olíusamráðsins í reikningum sínum að því er greinir frá í Viðskiptablaðinu.

Þetta kemur fram í ársreikningi Olís sem skilað var inn til ársreikningaskrár 16. ágúst síðastliðinn.

Eignarhaldsfélagið FAD 1830, sem á 100% hlut í Olís, hefur ekki skilað inn ársreikningi nema fyrir árin 2003, 2006 og 2007.

Eigendur FAD 1830 eru Einar Benediktsson og Gísli Baldur Garðarsson.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá því lok júní að Landsbankinn myndi hugsanlega taka Olís yfir vegna erfiðrar skuldastöðu núverandi eigenda félagsins. Þá kom einnig fram að bankinn færi sér hægt og segðist vera að vinna með eigendunum.

Í Viðskiptablaðinu kemur fram að Olís-samstæðan, sem tapaði 65,9 milljónum króna í fyrra, mat eignir sínar á 16,5 milljarða króna og skuldir á 15,1 milljarð króna.

Samkvæmt ársreikningnum er eigið fé hennar því um 1,4 milljarðar króna. Í ársreikningnum kemur þó fram að í árslok 2008 og 2009 hafi verið framkvæmt „sérstakt endurmat“ á fastafjármunum Olís sem leiddi til hækkunar á bókfærðu virði þeirra um samtals 4,2 milljarða króna.

Hægt er að nálgast vefútgáfu fréttarinnar á Viðskiptablaðinu hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×