Viðskipti innlent

Segist njóta stuðnings Deutche bank til þess að kaupa Iceland Foods

Malcom Walker.
Malcom Walker.
Stofnandi Iceland Foods, Malcom Walker, heldur því fram í Sunday Times í dag að hann njóti fjárhagslegs stuðnings Deutche bank til þess að kaupa hlut Landsbankans í Iceland Foods. Walker hefur áður lýst því yfir að hann hafi áhuga á að kaupa keðjuna og þegar lagt fram tilboð upp á einn milljarð punda en því var hafnað.

Talsmaður Deutche bank segir í viðtali við Reuters að Walker hafi ekki undirritað nein skjöl varðandi fjármögnun Deutche bank og ber því til baka fregnir að bankinn hyggist lána Walker fyrir kaupunum.

Walker á nú 23 prósent í Iceland Foods, en Landsbankinn á um 67 prósent eftir að Baugur fór á hausinn.

Mikill áhugi er á fyrirtækinu en síðast greindi Fréttablaðið frá því í október á síðasta ári að ónefnt fyrirtæki hefði áhuga á að kaupa Iceland Foods fyrir 1,4 milljarð punda, eða 246 milljarða króna.

Sérfræðingar telja virði fyrirtækisins jafnvel hærra, eða um einn og hálfan milljarð punda.

Hvort sem Walker hefur náð samkomulagi við Deutche bank eða ekki, þá er ljóst að hann rær öllum árum að því að festa kaup á félaginu, en hann hefur verið starfandi forstjóri þess síðan árið 2005 og náð góðum árangri með rekstur félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×