Viðskipti innlent

Lánuðu sér meira en lög heimiluðu

Fyrrverandi stjórnarmenn í MP banka lánuðu sjálfum sér og tengdum aðilum fimmfalt meira en lög heimiluðu árið 2009.

Í lok árs 2009 námu lán til fjögurra stjórnarmanna í MP banka og tengdra aðila 126 prósentum af eiginfjárgrunni bankans en máttu lögum samkvæmt nema að hámarki 25 prósentum skv. lögum um fjármálafyrirtæki.

Þegar MP banki var seldur til nýrra fjárfesta fóru þær eignir sem urðu eftir við söluna inn í EA eignarhaldsfélag, sem gegnir því eiginlega hlutverki gamla MP banka, ef svo má að orði komast. Fjármálaeftirið sektaði EA Eignarhaldsfélag í vikunni um 15 milljónir króna fyrir þessar lánveitingar, en sektin er sama fjárhæð og fæst fyrir um það bil þrjátíu fermetra kjallaraíbúð í miðbæ Reykjavíkur.

Til að setja þetta hlutfall í samhengi, 126 prósent, þá er ágætt að rifja upp að útrásarvíkingar voru harðlega gagnrýndir vegna lána sem námu allt að 50 prósentum af eiginfjárgrunni gömlu viðskiptabankanna. Þetta er ítarlega rakið t.d í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þá vildi einn hluthafi í Landsbankanum, Ólafur Kristinsson lögmaður, safna saman fólki til að fara í skaðabótamál vegna mikilla lána Landsbankans til félaga í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila, sem samkvæmt skýrslunni námu á einum tímapunkti fimmtíu prósentum af eiginfjárgrunni Landsbankans.

En hvaða stjórnarmenn í gamla MP banka voru þetta sem lánuðu sér svona mikla peninga? Samkvæmt ársreikningi voru Margeir Pétursson, stjórnarformaður, Sigurður Gísli Pálmason, Hallgrímur G. Jónsson, Kristinn Zimsen og Sigfús Ingimundarson í stjórn bankans í árslok 2009. Í tilkynningu FME eru nöfn stjórnarmanna hins vegar ekki birt.

Í rökstuðningi FME fyrir sektinni að áhættan hafi falist í lánum til félaga í eigu stjórnarmannanna eða félaga sem þeir sátu í stjórnum hjá, allt hafi þetta verið hluti af „þéttriðnu tengslaneti fjórmenninganna sem var hnýtt með viðskiptatengslum og að hluta til fjölskylduböndum," eins og þar segir.

En eru 15 milljónir króna há sektarfjárhæð þegar menn lána sjálfum sér fimmfalt meira en þeir mega samkvæmt lögum? Einhver gæti haldið því fram að það væri ekki há fjárhæð, svona í ljósi alvarleika brotsins.

Gunnar Andersen, forstjóri FME, sagði við fréttastofu í dag að skalinn á sektum væri frá 50 þúsund krónum upp í 50 milljónir. Tekið væri mið af þessum skala, alvarleika brotanna og fjárhagsstöðu viðkomandi fyrirtækis. Ef horft væri á heildareignir gamla MP banka í hlutfalli við eignir stóru bankanna þriggja þá hafi heildareignir MP banka verið innan við 10 prósent af eignum minnsta bankans.

Það skal tekið fram að sektin og lánveitingarnar tengjast með engum hætti nýjum eigendum MP banka. EA fjárfestingarfélag hf. hefur höfðað mál gegn Fjármálaeftirlitinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krafist ógildingar sektarákvörðunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×