Viðskipti innlent

Sala áskriftakorta í Borgarleikhúsið framar vonum

Borgarleikhúsið hefur enn og aftur sett met í sölu áskriftarkorta. „Sem kunnugt er hefur orðið sprenging í kortasölu Borgarleikhússins síðustu ár og í fyrra voru kortagestir leikhússins komnir yfir 11.000 sem er það mesta í sögu íslensks leikhúss. Þá hafði kortasala rúmlega tuttugufaldast á tveimur árum,“ segir í tilkynningu frá leikhúsinu.

Fyrir tíu dögum hófst kortasalan fyrir komandi leikár og er hún nú rúmlega rúmlega 25% meiri en á sama tíma á metárinu í fyrra en það er langt umfram áætlanir og markmið leikhússins.

„Við erum auðvitað í skýjunum yfir viðtökunum. Fjöldi kortagesta var orðinn svo mikill í fyrra að við töldum að ákveðnu hámarki hefði verið náð og töldum ólíklegt að kortagestum okkar myndi fjölga enn frekar. Við erum hins vegar afar stolt af nýju leikári og því gleður það okkur að finna að kortasalan er enn að aukast og því stefnir í enn eitt metárið," segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhússins.

Þá segir að lokum að árangur Borgarleikhússins í kortasölu og mikil fjölgun leikhúsgesta hafi verið ein helsta ástæða þess að Ímark valdi Borgarleikhúsið fyrirtæki ársins árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×