Viðskipti innlent

Forstjóri FME vill rýmka sektarheimildir

JMG skrifar
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Mynd/ Pjetur.
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Mynd/ Pjetur.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir þörf á að rýmka sektarheimildir eftirlitsins til að auka varnaráhrif stjórnvaldsaðgerða. Hámarkssekt nú er fimmtíu milljónir króna samanborið við mörg hundruð milljóna sektarheimildir Samkeppniseftirlitsins.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að fyrrverandi stjórnarmenn í MP banka lánuðu sjálfum sér og tengdum aðilum fimmfalt meira en lög heimiluðu árið 2009. Fjármálaeftirlitið hefur sektað eignarhaldsfélag gamla MP banka um fimmtán milljónir fyrir þessar lánveitingar. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir eftirlitið hafa heimild til stjórnvaldssekta vegna stórra áhættuskuldbindinga frá 50 þúsund krónum og upp í 50 milljónir. En hefur fimmtán milljóna króna sekt næg varnaðaráhrif við svona broti?

„Það segir sig sjálft að það er frekar lág upphæð fyrir stór fyrirtæki, best væri auðvitað að þurfa aldrei að beita þeim, en ég get líka nefnt að Evrópusambandið er að skoða þessa hluti eins og er og væntanlega er von á tilskipunum um strangari viðurlög,“ segir Gunnar Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Til samanburðar þá hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að sekta um allt að tíu prósent af rekstrartekjum. Gunnar segir því nauðsynlegt að taka þetta mál upp og skoða.

„Ég held að það sé tilefni til að skoða þessi viðurlög, þennan ramma, í ljósi stærðar og varnaráhrifa sem þessi viðurlög eiga að hafa því þau eru takmörkuð ef að ramminn leyfir ekki meira en fimmtíu milljónir,“ segir Gunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×