Viðskipti innlent

Risavaxinn IBM tæknitrukkur á leið til landsins

Nú gefst fólki í íslenskum upplýsingatækniiðnaði tækifæri á að skyggnast inn í nánustu framtíð því tæknitrukkur frá IBM er væntanlegur til landsins á vegum Nýherja í næstu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu um málið. Þar segir að tæknitrukkurinn, sem er nokkurs konar gagnver á hjólum, kemur til landsins vegna 100 ára afmælis IBM tæknirisans. Markmiðið með komu trukksins er ennfremur að vekja athygli á nánu samstarfi Nýherja og IBM í gegnum tíðina.

“Trukkurinn er stútfullur af nýjum búnaði en jafnframt er þar að finna framtíðartækni frá IBM, sem er eitt af leiðandi fyrirtækjum í upplýsingatækni í heiminum. Meðal annars verður þar að finna IBM netþjóna, sýndarvæðingarlausnir, eftirlitskerfi, rekkaþjóna, blaðaþjóna, nýjustu gagnageymslulausnir og öflugustu örgjörvana,” segir Gísli Þorsteinsson hjá Nýherja í tilkynningunni.

„Þess má geta að búnaðurinn í trukknum getur auðveldlega keyrt upplýsingatæknikerfi fyrirtækja með um fimm þúsund starfsmenn. "Trukkurinn er heldur ekkert smásmíði því hann er 36 tonn að þyngd og 17 metra langur," segir Gísli.

IBM starfrækti hér fyrirtæki á árinu 1967 til 1992 þar til Nýherji var stofnaður. Upp frá því hefur Nýherji verið samstarfaðili IBM á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×