Viðskipti innlent

Íslandsbanki yfirtekur eignir Fasteignar

Íslandsbanki mun yfirtaka eignir Fasteignar sem ekki tilheyra sveitarfélögunum sem standa að félaginu. Leigueign Arion banka hf. í Borg­arnesi kann þó að verða undanskilin við yfirtökuna. Íslandsbanki mun jafnframt yfirtaka hluta af rekstrarláni félagsins, sem nemur samtals um einum milljarði kr. í hlutfalli við virkan eignarhlut bankans í Fasteign eftir útgöngu Álftaness og Garða­bæjar úr félaginu.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Eyjafrétta. Þar segir að hlutafé Fast­eignar verður fært niður í núll en aukið að nýju af þeim aðilum sem áfram munu vera leigutakar félagsins og þá í hlutfalli við leigugreiðslur þeirra. Samhliða því framselja aðrir núverandi hluthafar, sem ekki verða áfram leigutakar félags­ins, hluti sína til félagsins.

Þetta er meðal hugmynda um framtíð Eignarhaldsfélagsins Fast­eignar hf. sem hefur verið í lausu lofti undanfarna mánuði. Voru þær ræddar í bæjarráði (Vestmannaeyja) þar sem lá fyrir hugmynd að rammasamkomulagi sem mögulega kann að nást á milli Fasteignar hf., lánardrottna félags­ins, hluthafa og leigu­taka.

Meðal annarra atriða er að gengið verður frá breyttum eða nýjum lána­samningum við lánardrottna Fast­eignar. Álag á lánum Glitnis til Fast­eignar verður fast, 1,45% frá miðju árið 2011 og út árið 2014. Vextir af lánunum verða greiddir að fullu, en afborganir frá miðju ári 2011 og út árið 2014 lækka tíma­bundið um 50%.

Stefnt er að því að endurgreiðslutími lánanna verði 25 til 27 ár og að mælt verði fyrir um sér­staka uppgreiðsluheimild án álags í samningunum. Íslandsbanki hefur að auki óskað eftir að evru-lánum verði breytt í lán í íslenskum krónum og að höfuðstóli lánanna verði breytt til samræmis við starfsreglur bankans. Fasteign mun gera samkomulag við bankana þess efnis að breytingar á lána­samningunum muni ekki hafa nein áhrif á rétt­arstöðu félagsins vegna gengislána.

Nýir leigusamningar munu verða gerðir milli Fasteignar og leigutaka félagsins. Mun leigugjald sam­kvæmt samningunum framvegis taka mið af raunverulegum af­borg­unum Fasteignar af lánum félagsins og rekstrarkostnaði þess. Með breytingunum verður rekstur fé­lagsins lágmarkaður þannig að megintilgangur þess verður að móttaka leigugreiðslur og ráðstafa þeim til niðurgreiðslu lána og vaxta auk eftirlits með viðhaldi og meðferð fasteigna félagsins, að því er segir í Eyjafréttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×