Viðskipti innlent

Atvinnuleysið var 6,6% í júlí

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Atvinnuleysi á Íslandi mældist 6,6 prósent í júlí og lækkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða. Þá er atvinnuleysið 0,9 prósentustigum minna en á sama tíma í fyrra.

Að meðaltali voru 11.400 atvinnulausir í júlí og fækkaði atvinnulausum um rúmlega 280 frá fyrri mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Atvinnuleysið var 7,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu en 5 prósent á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum 10,3 prósent en minnst á Norðurlandi vestra 2 prósent.

Atvinnuleysið í júlí var 6,5 prósent meðal karla og eilítið hærra á meðal kvenna eða 6,8 prósent. Alls voru rúmlega 1.800 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok júlí, þar af tæplega 1.100 Pólverjar eða um 60 prósent þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðar.

Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í mannvirkjagerð eða tæplega 400. Í júlímánuði bárust Vinnumálastofnun engar tilkynningar um hópuppsagnir. Alls fengu 33 launamenn greitt úr Ábyrgðarsjóði launa í júlí, þar af voru 10 starfandi í iðnaði.

Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í ágúst breytist lítið og verði á bilinu 6,4 til 6,7 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×