Viðskipti innlent

Samdráttur í fataverslun heldur áfram

Minna var keypt af fötum á hefðbundnum sumarútsölum í júlí síðastliðnum heldur en í fyrra. Þannig heldur áfram samdráttur í fataverslun sem staðið hefur síðastliðin ár.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að eftir því sem næst verður komist virðist breyting hafa orðið í fatainnkaupum þar sem ráðdeild og hagkvæmni neytenda ræður meiru en áður. Meðal þess sem fatakaupmenn merkja er að neytendur halda sig ekki endilega við þekkt vörumerki heldur kaupa frekar þau merki sem eru ódýrari.

Athyglisverður er einnig sá samdráttur sem varð í sölu áfengis í júlí og nam 7,3% á föstu verðlagi. Sala á áfengi fyrir verslunarmannahelgina fór fram í júlí á þessu ári líkt og í fyrra. Ætla má að meira seljist af ódýrari tegundum áfengis en áður vegna þeirra verðhækkana sem orðið hafa á áfengi.

Aðra sögu er að segja af raftækjaverslun sem vex með hverjum mánuðinum og fer að nálgast það sem hún var fyrir hrun að raunvirði. Velta í raftækjaverslun var 21,7% meiri í krónum talið í júlí síðastliðnum miðað við júlí 2008.

Þá fer velta í húsgagnaverslun hægt og bítandi vaxandi. Athyglisverður er sá vöxtur sem orðið hefur í sölu skrifstofuhúsgagna undanfarna mánuði. Það sem af er þessu ári hefur velta skrifstofuhúsgagna verið 30% meiri en á sama tímabili í fyrra á föstu verðlagi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×