Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðirnir töpuðu 4,4 milljörðum á N1

Íslensku lífeyrissjóðirnir töpuðu um 4,4 milljörðum króna þegar gengið var frá samningum við kröfuhafa olíufélagsins N1. Það kemur í ljós þegar félagið verður selt, hversu mikið tap Íslandsbanka og Arionbanka verður.

Þetta kemur fram á vefsíðu RUV. Þar segir að heildarkröfur í N1 samstæðuna, það er að segja olíufélagið N1, móðurfélagið BNT og fasteignafélagið Umtak, námu um 53 milljörðum króna þegar gengið var frá samningum við lánardrottna í lok júní. Þá var meirihluta skuldanna breytt í hlutafé, og félagið tekið yfir af kröfuhöfum. Milljarðar króna voru hins vegar afskrifaðar í þessum gjörningi.

Lífeyrissjóðirnir áttu stærstan hluta af skuldabréfum í N1, sem nam um 14% af heildarkröfum í samstæðuna. Andvirði skuldabréfanna var um 7,4 milljarðar króna. Samkvæmt samningunum var um þremur milljörðum króna breytt í hlutafé, en afgangurinn, um 4,4 milljarðar króna, afskrifaður.

Arion banki átti stærstu kröfuna, upp á 25 milljarða króna í Umtaki, fasteignafélagi N1. Sú krafa nam um 40% af heildarkröfum í samstæðuna. Samkvæmt samningnum fær Arion banki um 39% hlut í N1, auk rúmra fimm milljarða í formi skuldabréfs. Það kemur svo í ljós þegar félagið verður selt, hversu mikið bankinn þarf að afskrifa.

Talið er að virði N1 sé í dag á bilinu 20 til 25 milljarðar króna. Miðað við það er líklegt að Arion þurfi að afskrifa á bilinu 10 til 12 milljarða króna. Þó má gera ráð fyrir því að nú þegar hafi verið tekið tillit til þess í bókum bankans, að því er segir í frétt RUV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×