Viðskipti innlent

Statoil og Faroe Petroleum hafa áhuga á Drekasvæðinu

Norska olíufélagið Statoil og skoska olíufélagið Faroe Petroleum eru bæði talin íhuga að taka þátt í olíuleitarútboði Íslands á Drekasvæðinu í haust.

Breska blaðið The Sunday Times greinir frá þessu, án þess þó að vitna í heimildir, en olíufélög reyna jafnan að fara mjög leynt með áform sín í þessum efnum.

Sunday Times segir að fyrsta olíuleitarútboð Íslands hafi mislukkast fyrir tveimur árum þegar aðeins tvö lítil olíufélög buðu í leitina og þau hafi síðan bæði hætt við vegna óaðlaðandi kjara.

Statoil, sem er stærsta fyrirtæki Norðurlanda, og Faroe Petroleum, sem er með höfuðstöðvar í Aberdeen og skráð í kauphöllinni í London, áttu bæði fulltrúa á kynningarfundi Orkustofnunar í Stafangri í vor um Drekaútboðið.  Þangað mættu fulltrúar frá átta olíufélögum, þeirra á meðal frá bandarísku olíurisunum Exxon Mobil og Conoco Philips.

Orkustofnun neyddist til að fresta útboði sem átti að verða 1. ágúst s.l. þar sem nauðsynleg lagabreyting dagaði uppi á lokadögum Alþingis. Nú er stefnt að því að útboðið hefjist þann 3. október. Það er þó háð því að þingmenn samþykki lagabreytinguna á haustþingi í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×