Viðskipti innlent

Rætt um að setja fleiri íbúðir ÍLS á markað

Rætt verður hvernig koma megi íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs á leigumarkað á fundi velferðarráðherra og stjórnenda sjóðsins í dag. Sjóðurinn á tæplega fjórtán hundruð íbúðir en eftirspurnin á leigumarkaði er mikil.

Í dag á Íbúðalánasjóður þrettánhundruð áttatíu og fimm íbúðarhúsnæði um allt land, en framkvæmdastjóri sjóðsins býst við því að sjóðurinn muni eiga um það bil tvö þúsund íbúðir í lok ársins.

Um það bil fjögur hundruð og fimmtíu íbúðir eru í útleigu í dag en Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, hefur nú óskað eftir fundi með stjórnarformmani og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.

Í samtali við fréttastofu segir Guðbjartur að meðal annars eigi að ræða hvernig koma megi hluta af eignum sjóðsins aftur á leigumarkað til að mæta mikilli eftirspurn.

Margar íbúðir í eigu sjóðsins er hins vegar ekki hægt að setja á leigumarkað þar sem þær eru ýmist fokheldar eða enn á byggingarstigi. Þá eru jafnframt íbúðir sem eru of stórar til að ætla megi að einhver vilji leigja þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×